Plöntur sem bæta heilsu og líðan.

Katrín Ólöf Egilsdóttir | 20 August, 2021


          
            Plöntur sem bæta heilsu og líðan.

Sífellt fleiri átta sig á að lifandi plöntur gleðja sálina og geta líka bætt líðan og heilsu fólks. Í það minnsta sumar plöntur því að rannsóknir sýna að vissar plöntur bæta loftgæði í híbýlum manna. 

Það er vísindalega sannað að fólki líður betur og er í betra jafnvægi í návist plantna, vinnuafköst aukast og sköpunargleði eykst.

Fjöldi rannsókna hafa verið gerðar á þessu sviði og niðurstöður þeirra leiða í ljós að þar sem plöntur eru hafðar í vinnurými eða við tölvuskjái þar eru jafnan færri veikindadagar. Það dregur úr einkennum eins og þreytu, streitu, höfuðverkjum og ertingu í slímhúð hjá starfsmönnum.

Jákvæð áhrif plantna á starfsumhverfi hafa lengi verið viðurkennd en sem dæmi bendir rannsókn frá 1985 á að rými með plöntum bætir upplifun starfsmanna á umhverfinu og þeir kjósa frekar að vera inni í herbergi með gróðri en án hans (Shoemaker o.fl., 1992). 

Önnur rannsókn hefur sýnt fram á að plöntur og aðrir lifandi hlutir inni á skrifstofu ýta undir að viðskiptavinum og starfsmönnum líði vel (Campbell, 1979). Einnig benda Aitken og Palmer á í rannsókn frá 1989 að samskipti milli viðskiptavina og starfsmanna séu almennt jákvæðari þegar plöntur eru til staðar.

Þær plöntur sem þekktar eru fyrir að draga í sig eiturefni úr loftinu og bæta loftgæði innanhús eru meðal annars: Mánagull, Geislafífill, Friðarlilja, Drekatré, Veðhlaupari, Bostonburkni, Gúmmítré, Bergpálmi og Fíkjutré Benjamíns. Plöntur sem þurfa mikið vatn og geta þar með hækkað rakastig eru: Burknar, Skrautgrös, Pálmar, Fíkjutré og Bergflétta.

Mánagull er sú planta sem notuð er í plöntuveggina okkar og eru að ryðja sér til rúms á Íslandi. Kostirnir við slíka veggi er að hægt er að koma fyrir miklu magni af plöntum á litlu svæði, þeir eru einfaldir í uppsetningu og einungis þarf að vökva plönturnar á tveggja til þriggja vikna fresti. Einnig hjálpa plöntuveggir til við að hreinsa inniloft og mæta þörf fólks til að tengja við náttúruna sem við þráum svo sterkt. Svo eru elsku plönturnar svo fallegar og láta okkur líða vel.